Japanir í eltingaleik við grænfriðunga

Langreyður skorin í Hvalstöðinni í Hvalfirði
Langreyður skorin í Hvalstöðinni í Hvalfirði Ómar Óskarsson

Herskáir grænfriðungar segjast nú vera á hálfgerðum flótta undan japönskum gæsluskipum á milli ísjaka nærri Suðurskautinu, í kjölfar fyrstu skæra þeirra við japanska hvalveiðimenn í upphafi veiðitímabilsins.
Paul Watson leiðir hópinn að vanda og segir að skip fullt af japönsku gæslumönnum hafi fylgt þeim eftir í tveggja klukkutíma ofsafengnum eltingaleik og miðað á þá með háþrýstivatnsdælum. "Við vorum með okkar vatnsdælur tilbúnar en sprautðum aldrei á þá," hefur AFP eftir Watson sem talar í gegnum gervihnattasíma frá Suðurskautinu.

Talsmenn hvalveiðimannanna segjast hafa notað vatnsdælurnar vegna þess að skip grænfriðunganna hafi komið hættulega nærri þeim. "Þarna  var um að ræða eðlilegar varúðarráðstafanir eftir að við margítrekuðum munnlegar aðvaranir. Þeir vita að við sprautum vatni ef þeir hunsa aðvaranir okkar og koma of nærri."

Watson segir að Japanirnir séu enn á eftir þeim en grænfriðungarnir hyggist hrista þá af sér á milli ísjakanna við ströndina. "Þeir segja að ef við truflum starfsemi þeirra þá setji þeir skip upp á milli okkar og skutlanna, en mun líklega enda með árekstri. En við ætlum ekki að gefast upp, við ætlum að hindra aðgerðir þeirra og ekki hætta þótt þeir reyni að þvinga okkur burt."

Forsætisráðherra Japan hefur lýst aðgerðum grænfriðunga sem skemmdarverkum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert