Fimm ár frá flóðunum í Asíu

Kona frá Aceh á Indónesíu minnist fórnarlamba flóðanna fyrir fimm …
Kona frá Aceh á Indónesíu minnist fórnarlamba flóðanna fyrir fimm árum. BEAWIHARTA

Á morgun, annan í jólum, eru fimm ár liðin frá einum mestu náttúruhamförnum sögunnar þegar flóðbylgja skall á fjölmörgum löndum í Asíu og austurströnd Afríku. Mörg hundruð þúsund manns fórust, og milljónir manna í þessum löndum þurftu á tafarlausri neyðaraðstoð að halda.

Mikið hjálparstarf fór strax í gang, ekki síst á vegum Rauða krossins. Miklum fjármunum var safnað víða um heim, en á Íslandi söfnuðust samtals rúmlega 170 milljónum króna á vegum RKÍ. Til viðbótar má telja vörur og þjónustu sem metin er á alls um níu milljónir króna. Rauði kross Íslands hefur sett upp heimasíðu um hamfarirnar, en þar er gerð grein fyrir í hvaða verkefni framlög almennings, stjórnvalda og fyrirtækja fóru, og rætt við nokkra af sendifulltrúunum sem störfuðu í Aceh í Indónesíu og á Sri Lanka.

„Féð safnaðist að hluta á fyrstu dögunum eftir hamfarirnar og að hluta í sameiginlegri fjársöfnun helstu félagasamtaka sem komu að hjálparstarfi á flóðasvæðum, Neyðarhjálp úr norðri. Frá upphafi lagði Rauði kross Íslands mikla áherslu á að ráðstafa fénu í nánu samráði við Alþjóða Rauða krossinn og heimamenn sjálfa, einkum í þeim tveimur löndum sem urðu verst úti, Sri Lanka og Indónesíu.

Skipta má aðstoð Rauða kross Íslands í fjóra þætti: Neyðaraðstoð fyrstu vikur og mánuði, útvegun sendifulltrúa á hamfarasvæðið (alls 18 sendifulltrúar), stuðning við eftirlifendur og að lokum langtíma uppbyggingu sem enn er ekki að fullu lokið,“ segir á heimasíðu RKÍ.

Upplýsingarnar er að finna á vefslóðinni raudikrossinn.is/tsunami

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert