Segir Jemen ógna öryggi á alþjóðavísu

Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir að ótryggt ástand í Jemen ógni bæði nágrannaríkjunum landsins sem og gjörvallri heimsbyggðinni.

Clinton segir að stjórnvöld í Jemen hafi orðið að grípa til aðgerða til að koma á stöðugleika, ella hefðu þau glatað stuðningi Vesturveldanna.

Hún segir að sendiráð Bandaríkjanna í höfuðborg landsins muni opna á nýjan leik þegar aðstæður leyfi, en sendiráðinu var lokað vegna hótana frá hópi sem tengist al-Qaeda hryðjuverkasamtökunum.

Bretar og Frakkar hafa gert slíkt hið sama og lokað sínum sendiráðum. Þá er búið að herða allt eftirlit á flugvöllum víða um heim eftir að nígerískum karlmanni mistókst að sprengja farþegaflugvél yfir Detroit í loft upp á jóladag.

Nígeríumaðurinn er sagður hafa hlotið þjálfun í Jemen. Hann hefur verið ákærður í Bandaríkjunum fyrir sprengjutilræðið, en flugvélin var að búa sig til lendingar þegar hann náðist.


Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.
Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert