Kínverjar vísa ásökunum á bug

Maður gengur fram hjá höfuðstöðvum Google í Peking í Kína.
Maður gengur fram hjá höfuðstöðvum Google í Peking í Kína. Reuters

Kínversk stjórnvöld vísa því alfarið á bug að hafa átt þátt í tölvuárásum á netfyrirtækið Google. Kínverjar eiga nú í deilum við bandarísk yfirvöld vegna málsins, en Google hefur m.a. hótað því að yfirgefa landið vegna árásarinnar. Þá segja kínversk stjórnvöld að ritskoðun á netinu sé nauðsynleg.

Þetta er haft eftir kínverskum ráðamönnum í tveimur viðtölum sem kínverski ríkisfjölmiðillinn Xinhua birti. Stjórnvöld í Washington segja að Barack Obama Bandaríkjaforseti hafi áhyggjur af fullyrðingum Google, en fyrirtækið segist hafa orðið fyrir árásum frá kínverskum tölvuþrjótum.

Google hefur hótað að hætta allri starfsemi í landinu. Þá segjast forsvarsmenn fyrirtækisins ekki lengur vilja beygja sig undir kínverska ritskoðun.

Ónefndur talsmaður iðnaðar- og fjarskiptaráðuneytisins í Kína segir ekkert hæft í ásökunum þess efnis að kínversk stjórnvöld hafi átt þátt í árásunum.

Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert