Óhamingjusamur milljarðamæringur myrtur

Talið er að Bandaríkjamaðurinn Abraham Shakespeare, sem vann rúma 2,5 milljarða króna í lottói árið 2006, hafi verið myrtur en hann fannst grafinn tvo metra í jörðinni undir þykkri steinsteypu.

Shakespeare hvarf fyrir níu mánuðum en fjölskylda hans tilkynnti ekki um hvarfið fyrr en í nóvember þar sem hún hélt að hann væri á sólarströnd við Karabíska hafið. Leifar hans fundust hinsvegar í steinsteypugröf inn í skógi á einkaeign í Flórída. Eignin er í eigu unnusta konu sem vingaðist við Shakespeare árið 2007.

Talið er að Shakespeare hafi verið myrtur en lögreglan hefur ekki sannanir fyrir því og hefur því enginn verið handtekinn.

Bróðir Shakespears, Robert Brown, segir hann oft hafa óskað þess að hafa aldrei keypt vinningsmiðann. „„Það hefði verið betra væri ég blankur,“ sagði hann oft við mig,“ sagði Brown.

Áður en Shakespeare varð milljarðamæringur var hann aðstoðarflutningabílstjóri og bjó með móður sinni. Hann var með sakaskrá og nær ólæs. Eftir að hann datt í lukkupottinn keypti hann hundruð milljón króna heimili og var afar gjafmildur. „Hann áttaði sig ekki á þessu öllu saman,“segir Samuel Jones, æskuvinur Shakespears. „Vinningurinn breytti lífi hans á slæman hátt.“ Jones segir Shakespeare hafa sagt sér að hann hefði talið sig hafa eignast marga vini, en síðar uppgötvað að þeir vildu bara hlutdeild í peningunum hans.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert