Rudd vill draga menn til ábyrgðar

Unnið hefur verið að því að koma í veg fyrir …
Unnið hefur verið að því að koma í veg fyrir frekari olíuleka. Reuters

Kevin Rudd, forsætisráðherra Ástralíu, hyggst draga menn til ábyrgðar vegna flutningaskips sem strandaði í Kóralrifinu mikla um helgina, en olía lekur úr skipinu. Rudd segir málið hið versta. Svo virðist sem að skipið hafi breytt um stefnu og villst um 12 km af leið.

Rudd segir að staðan sé alvarleg og þá segja embættismenn að skipið hafi skemmst mikið. Hins vegar sé búið að koma í veg fyrir frekari olíuleka. Að því er segir á vef BBC.

Forsætisráðherrann segir að Kóralrifið mikla sé mikilvægasta náttúruauðlind Ástrala. Málið sé því litið mjög alvarlegum augum.

„Frá mínum sjónarhóli séð þá er það svívirðilegt að eitthvert skip geti villst 12 af leið, að því er virðist, og inn á Kóralrifið mikla,“ sagði Rudd eftir að hafa skoðað aðstæður úr þyrlu.

Skipið, sem er skráð í Kína, liggur á Douglas Shoals, sem er skammt frá austurströnd Great Keppel Island. Bannað er að sigla á þessu svæði.

Menn óttuðust í fyrstu að skipið gæti brotnað í tvennt með þeim afleiðingum að mörg hundruð tonn af olíu myndu leka í hafið.

Embættismenn segja að búið sé að leysa upp þá olíu sem hafi lekið með sérstökum efnum.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert