Fangar velkomnir til Þýskalands

Angela Merkel
Angela Merkel Reuters

Angela Merkel Þýskalandskanslari hefur lýst því yfir að þýsk stjórnvöld séu nú reiðbúin að taka við fyrrverandi föngum frá Guantánamo þrátt fyrir fyrri yfirlýsingar þess efnis að slíkt kæmi ekki til greina.

Í nýbirtu viðtali við tímaritið Focus segir Merkel að Þjóðverjar vilji gjarnan aðstoða Bandaríkjamenn. Þar upplýsir hún að Thomas de Maiziere, innanríkisráðherra Þýskalands, hafi borið þessi skilaboð inn á fund embættismanna á vegum Kristilega demókrata, flokks Merkels.

Bandarísk stjórnvöld fóru þess nýverið á leit við þýsk stjórnvöld að þau taki við þremur fyrrverandi föngum, einum frá Sýrlandi, Palestínu og Jórdaníu. Ekki kom fram í viðtalinu við Merkel hvað þýsk stjórnvöld eru tilbúin til að taka við mörgum föngum.

De Maiziere mun í samtölum við ráðamenn í Hamburg og Brandenburg hafa rætt um hvernig best væri að taka við föngunum fyrrverandi og tryggja þeim eðlilegt líf. Í því felst m.a. að aðstoða þá við að fá atvinnu og húsaskjól. Menn hafa einnig töluverðar áhyggjur af því í hvers konar andlegu ástandi fangarnir fyrrverandi muni vera eftir áralanga dvöl þeirra í  Guantánamo.

Margir embættismenn í héröðum Þýskalands hafa hingað til lýst mikilli andstöðu við því að Þýskaland taki við fyrrverandi föngum svo lengi sem bandarísk stjórnvöld vildu sjálf ekki leyfa þeim að koma til Bandaríkjanna.

Barack Obama Bandaríkjaforseti hét því um það leyti sem hann tók við embættinu að hann myndi láta loka Guantánamo-fangelsinu á Kúbu í janúar sl. Fangelsinu hefur enn ekki verið lokað og vilja stjórnmálaskýrendur útskýra það með því hversu mikil andstaða við áformum forsetans eru á Bandaríkjaþingi en þar óttast menn að Bandaríkin neyðist til þess að leyfa föngunum að koma til Bandaríkjanna verði fangelsinu lokað.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert