„Þetta var ekki ástarfley heldur var það fullt af hatri"

Forsætisráðherra Ísraels, Benjamin Netanyahu, segir að Ísraelar hafi átt annarra úrkosta völ en að stöðva för skipalestarinnar sem reyndi að komast til Gaza á mánudag. Níu létust í árás Ísraelshers á eitt skipanna í skipalestinni. „Þetta var ekki ástarfley heldur var þetta fley fullt af hatri," sagði hann við fréttamenn í dag. 

Stjórnvöld í Tyrklandi hafa gagnrýnt árásina harðlega en þrír Tyrkir voru meðal þeirra sem féllu í árásinn. Krefst utanríkisráðherra Tyrklands þess að Ísraelar opni landamæri Gaza og segir að það sé skilyrði fyrir áframhaldandi samstarfi Tyrkja og Ísraela.

Allir útlendingarnir sem voru um borð í skipunum verða farnir frá Ísrael í kvöld.

Aðstoðarsendiherra Ísraels hjá Sameinuðu þjóðunum, Daniel Carmon, varði árás hersins á skip „Frelsisflotans“ og sagði að hermennirnir hefðu þurft að beita byssum í sjálfsvörn. Stuðningsmenn Palestínumanna í tyrkneska skipinu Mavi Marmara hefðu ráðist á hermenn með „hnífum, kylfum og öðrum vopnum“. Að sögn fjölmiðla í Ísrael náðu farþegar skipsins að minnsta kosti tveimur byssum af hermönnum.

Farþegar í skipinu neita þessu og einn þeirra sagði að hermenn hefðu beitt gúmmíkúlum, táragasi og Taser-rafbyssum um leið og þeir stigu um borð í skipið úr þyrlum.

Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna í Genf hefur ákveðið að hefja sjálfstæða rannsókn á árásinni, að því er fram kemur í frétt BBC.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert