N-Kórea „kúgar alþjóðasamfélagið“

Utanríkisráðherra Suður-Kóreu ásakaði í dag nágranna landsins í norðri um að beita alþjóðasamfélagið kúgun til að gagnrýna ekki formlega árás á s-kóreskt herskip í mars. Samskipti Suðurs og Norðurs eru í járnum á Kóreuskaga eftir að suðrið ásakaði norðrið um að sökkva með tundurskeyti skipinu Cheonan. 

Yfirvöld í Seoul skáru í kjölfar árásarinnar á nánast öll viðskipti við Norður-Kóreu, en þau krefjast þess jafnframt að Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna refsi Pyongyang fyrir árásina.

Hvorki Kína né Rússland, tvö af þeim fimm löndum sem bera neitunarvald í Öryggisráðinu, hafa lýst yfir stuðningi við hugsanlegar refsiaðgerðir gegn Norður-Kóreu, þar sem yfirvöld þverneita að bera ábyrgð á árásinni. Utanríkisráðherra S-Kóreu, Yu Myung-Hwan sagði á þingfundi í dag að Kínverjar og Rússar hefðu áhyggjur af viðbrögðum Norðursins við refsiaðgerðum „frekar en af sannleikanum um Cheonan".

Hann sagði að viðbrögð Norður-Kóreu við ásökunum um árásina, m.a. með því að hóta hernaðaraðgerðum, jafngiltu kúgun. Yu sagði jafnframt að Suður-Kórea myndi halda sínu striki til að sannfæra Kína og Rússland um að bregðast við.

Kim Jong-il leiðtogi Norður-Kóreu.
Kim Jong-il leiðtogi Norður-Kóreu. KCNA
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert