Verðlaun fyrir múmíufund

Önnur múmía, sú fannst í Egyptalandi
Önnur múmía, sú fannst í Egyptalandi AP

Eftir áralangt lagaþref fær þýsk kona, sem uppgötvaði 5.000 ára múmíu í ís á ferðalagi um ítölsku Alpana árið 1991, 27,5 milljóna króna verðlaunafé frá yfirvöldum í Bozano.

Erika Simon var á ferðalagi í ítölsku Ölpunum ásamt eiginmanni sínum, Helmut, þegar þau rákust á múmíu í ótrúlega góðu ástandi, sem hafði varðveist í ísnum.

Í ljós kom að múmían var af karlmanni sem lést fyrir 5.000 árum, og fékk nafnið Oetzi.

Í yfirlýsingu frá lögmanni konunnar kemur fram að eftir margra ára „bitrar samningaviðræður“ hafi yfirvöld í héraðinu loks samþykkt að greiða 175.000 Evrur, eða sem samsvarar rúmum 27 milljónum íslenskra króna, til Eriku og fjölskyldu hennar, en eiginmaðurinn Helmut er nú látinn.

„Það hefði kostað héraðið mun minna að sýna almennilegt örlæti til að byrja með,“ sagði lögmaðurinn í samtali við AFP og bætti við að héraðið þyrfti að auki að greiða 7,5 milljón í málskostnað.

Oetzi er talinn vera elsta ís-múmía heims og fannst ásamt fatnaði og vopnum sem hafa gefið fræðimönnum vísbendingar um hvernig líf fólks var á síðar hluta nýsteinaldar.

Vísindamenn telja að Oetzi hafi verið um 46 ára gamall þegar hann lést. Hann hafði verið alvarlega særður með ör en sennilega hefur kylfuhögg í höfuðið endanlega gengið frá honum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert