Skelfing í smáþorpi í Kongó

Hluti þeirra sem létust í eldsvoða í þorpinu Sange í Lýðveldinu Kongó í gærkvöldi og nótt voru grafnir í fjöldagröf í dag. Að minnsta kosti 230 létust er olíubíll sprakk í loft upp í þorpinu eftir að hafa oltið hlaðinn eldsneyti er honum var ekið um þorpið.

Einhverjir þeirra sem létust voru að reyna að ná sér í bensín þar sem það lak úr tank bifreiðarinnar. En flestir létust er heimili þeirra urðu eldinum að bráð. Mörg heimilanna í þorpinu eru strákofar og leirkofar.

Starfsmenn Rauða krossins hafa í dag borið lík þeirra sem létust í tvær fjöldagrafir fyrir utan þorpið samkvæmt frétt AP.

Jean-Claude Kibala, aðstoðarhéraðsstjóri South Kivu, segir skelfingu blasa við í þorpinu. „Þar eru lík út um allt á götum þorpsins. Íbúarnir eru í áfalli, geta hvorki talað né grátið," segir hann í samtali við BBC.

Slysið átti sér stað seint í gærkvöld en þorpið er skammt frá landamærum Búrúndí. Olíubíllinn var að koma frá Tansaníu þegar hann valt og bensínið fór að leka úr tanknum. Í stað þess að flýja kom fólk og náði sér í eldsneyti segir Tondo Sahizira, 28 ára, íbúi í þorpinu við AFP fréttastofuna. „Nokkrum mínútum síðar varð sprenging, logarnir fóru um allt mjög hratt."

Bedide Mwasha íbúi í Sange, segir að fimm pakistanskir friðargæsluliðar hafi reynt að fá fólk til að yfirgefa svæðið en fólkið fór ekki að þeirra ráðum. „Karlar, konur og börn, jafnvel hermenn stjórnarinnar voru að stela bensíni," segir Mwasha í samtali við BBC.

Meðal þeirra bygginga sem urðu eldinum að bráð var kvikmyndahús þorpsins en þar höfðu margir íbúanna komið saman til að fylgjast með HM í knattspyrnu. „Börnin mín voru að horfa á fótboltaleikinn í kvikmyndahúsinu en þau hlupu út til þess að sjá bensínið," segir  Kiza Ruvinira í samtali við Reuters fréttastofuna.

„Ég fór út til að sjá hvað hafði gerst og fann lík barnanna minna þriggja. Ég veit ekki hvernig ég á að takast á við framtíðina."

Madnodje Mounoubai, talsmaður friðargæsluliða Sameinuðu þjóðanna, að 230 væru látnir og 196 væru slasaðir. Að minnsta kosti 61 barn og 36 konur létust í eldsvoðanum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka