Clinton fundar í Pakistan

Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, fundaði með pakistönskum ráðamönnum í dag í þeirri von að bæta samskipti ríkjanna. Bandarísk yfirvöld telja afar mikilvægt að eiga í góðum samskiptum við Pakistana í ljósi þess að stríðsátökin í nágrannaríkin Afganistan séu að færast í aukana.

Clinton kom til landsins í morgun í tveggja daga opinbera heimsókn. Hún mun ræða við æðstu ráðamenn þjóðarinnar og lofa þeim verulegri fjárhagslegri aðstoð.

Almenningur í landinu er fullur efasemda gagnvart bandarískum stjórnvöldum. Þau vilja hins vegar sýna í verki þau séu traustur bandamaður í baráttunni við talibana við landamæri Pakistans og Afganistans.

Clinton kom að því þegar afgönsk og pakistönsk stjórnvöld undirrituðu viðskiptasamkomulag, sem menn höfðu beðið lengi eftir. Bandaríkin vonast til að samkomulagið muni leiða til aukins samstarfs á milli nágrannaþjóðanna.

Þing beggja ríkja eiga hins vegar eftir að staðfesta samkomulagið. Meðal þess sem Afganar hafa farið fram á er að fá að flytja vörur til og frá Indlandi í gegnum Pakistan.

Aukinn útflutningur eru sagður munu hjálpa Hamid Karzai, forseta landsins, í baráttunni við talibana, því þá myndi efnahagsástand landsins batna. Það er jafnframt eitt af markmiðum Bandaríkjanna. Óðum styttist í að júlí 2011 renni upp, en þá vilja bandarísk yfirvöld hefja brottflutning hermanna frá Afganistan.

Alþjóðleg ráðstefna fer fram í Kabúl í Afganistan á þriðjudag, þar sem afgönsk stjórnvöld og aðrar þjóðir sem hafa stutt við bakið á Afgönum munu ræða um framtíð landsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert