Fyrrum kynlífsþrælar hafna afsökunarbeiðni

Konur sem þvingaðar voru til að liggja undir japönskum hermönnum sem kynlífsþrælar í Síðari heimsstyrjöld segja að einföld afsökunarbeiðni frá japönskum yfirvöldum dugi ekki til.

Sjö konur voru meðal mótmælenda í Seoul í Suður-Kóreu í dag þar sem þær höfnuðu opinberri afsökunarbeiðni Naoto Kan, forsætisráðherra Japans. Kan baðst formlega afsökunar í Tókýó á þriðjudag fyrir þær þjáningar sem þjóð hans hefði kallað yfir Kóreumenn á meðan þeir fóru með völd þar. Kan vildi með afsökunarbeiðninni reyna að bæta tengslin við Suður-Kóreu, sem eru stirð. 

Gagnrýnendur fordæma hinsvegar yfirlýsingu Kans þar sem í henni hafi ekki orði verið vikið að þeim Kóreumönnum sem þvingaðir voru til að vinna þrælavinnu eða vera kynlífsþrælar fyrir japanska herinn. Mótmælendur í Seoul í dag kröfðust einlægrar afsökunarbeiðni og skaðabóta. Konur sem gerðar voru að kynlífsþrælum hafa safnast saman árlega í tæp 18 ár fyrir framan japanska sendiráðið í Seoul til að minna Japani á myrkar hliðar í sögu þeirra. Þær eru nú flestar á níræðisaldri. 

Talið er að allt að 200.000 konur hafi verið gerðar að kynlífsþrælum í vændishúsum japanska hersins.  Yfirvöld í Japan hafa alla tíð neitað að greiða þeim skaðabætur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert