Hnífjafnt í Ástralíu

Hvorugur stærstu stjórnmálaflokka í Ástralíu er líklegur til að hafa náð meirihluta í þingkosningunum í dag, og hefur það ekki gerst í 70 ár eða frá árinu 1940. Verkamannaflokkurinn hefur verið við völd en stærsta stjórnarandstöðuaflið, bandalag Frjálslyndra íhaldsmanna, náði ekki meirihluta í kosningunum. Endanleg úrslit liggja þó ekki fyrir.

Haft hefur verið eftir leiðtoga Frjálslyndra íhaldsmanna, Tony Abbott, að hann muni á næstu dögum ræða við óháða þingmenn um að mynda minnihlutastjórn í landinu. Forsætisráðherra, Julia Gillard, sagði Verkamannaflokkinn hins vegar verða við völd þar til að endanleg úrslit kosninganna yrðu ljós.

Til að hljóta meirihluta varð að ná 76 þingsætum af 150 í neðri deild ástralska þingsins samkvæmt útgönguspám er Verkamannaflokkurinn með 72 þingsæti og bandalag Frjálslyndra íhaldsmanna með 73. Óháðir þingmenn eru fjórir og flokkur Græningja með einn. Þetta eru sem fyrr segir ekki endanleg úrslit, en þau munu liggja fyrir eftir helgi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert