Castro telur Bin Laden og Bush í samvinnu

Fidel Castro, fyrrum forseti Kúbu, telur að Bin Laden og …
Fidel Castro, fyrrum forseti Kúbu, telur að Bin Laden og George Bush, fyrrum forseti Bandaríkjanna, hafi unnið saman. Reuters

Fidel Castro, fyrrverandi leiðtogi Kúbu, segir að að Osama bin Laden sé á launum hjá leyniþjónustu Bandaríkjanna, CIA og að George W. Bush, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, hafi kallað al-Qaida leiðtogann til í hvert skipti sem hann taldi þurfa að auka á ótta almennings. Þetta segist Castro hafa lesið á vef WikiLeaks.

Breska blaðið Guardian fjallar um þetta í dag og segir, að Castro hafi sennilega fleiri ástæður en flestir núlifandi menn að trúa samsæriskenningum um myrkraverk í Hvíta húsinu í ljósi þess, að CIA reyndi eitt sinn að ráða hann af dögum með sprengjuvindli. 

Castro tók á móti Litháanum Daniel Estulin, höfundi þriggja bóka um  Bilderberg-klúbbinn, sem ýmsir vestrænir leiðtogar hafa tengst. Estulin va í heimsókn á Kúbu en hann er kunnur fyrir  athyglisverðar samsæriskenningar um ráðabrugg valdamikilla manna um heimsyfirráð.

„Bush skorti aldrei stuðning frá Bin Laden, sem var undirmaður hans,“ hefur Guardian eftir Castro. „Í hvert sinn, sem Bush vildi ýfa upp hræðslu fólks og hélt miklar ræður, mætti Bin Laden á svæðið og hótaði fólki með sögum um hvað hann ætlaði sér að gera.“

Castro sagði, að þúsundir leyniskýrslna, sem WikiLeaks hafi birt, sýni fyrir hvern leiðtogi al-Qaeda vinni í raun og veru.  „Þeir sem sýndu fram á að hann (Bin Laden) er í raun útsendari CIA voru WikiLEaks. Þeir sönnuðu það með skjölum," hefur Guardian eftir Castro en hann útskýrði ekki nánar hvernig sú sönnun fór fram. 

Estulin hefur lengi sagt að mannkynið þurfi að finna sér aðra plánetu til að búa á, vegna offjölgunar. Castro var ekki á sama máli og sagði að maðurinn hafi aðeins náð til tunglsins, sem sé óhentugt til búsetu. Því væri betra að bæta aðstöðuna á jörðinni.

„Mannkynið á að hugsa um sig sjálft ef það vill lifa hér í þúsundir ára til viðbótar,“ sagði Castro.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert