Varasamt að færa moskuna annað

Bandaríska þjóðin er klofin í afstöðu sinni til íslömsku menningarmiðstöðvarinnar.
Bandaríska þjóðin er klofin í afstöðu sinni til íslömsku menningarmiðstöðvarinnar. AFP

Klerkurinn sem stendur að baki áætlunum um byggingu mosku í nágrenni Ground Zero í New York varaði við því í viðtali í dag að ef hætt verði við verkefnið muni það aðeins styrkja stöðu múslímskra öfgamanna um allan heim. Klerkurinn, Feisal Abdul Rauf, vék sér þó undan því að svara hreint út hvort hann ætlaði að halda sig við áætlun sína.

„Þær ákvarðanir sem við tökum verða byggðar á því hvað kemur sér best fyrir alla," sagði Abdul Rauf í viðtali við ABC sjónvarpsstöðina. Í gær, þegar 9 ár voru liðin frá hryðjuverkaárásunum á tvíburaturnana, marseruðu þúsundir mótmælenda um götur New York og lýstu andstöðu sinni við bygginguna. Presturinn Terry Jones reyndi einnig að þrýsta á um að byggingin yrði færð annað með því að hóta að brenna 200 eintök af Kóraninum í mótmælaskyni.

Abdul Rauf hefur neitað að hitta Jones til að ræða málið og sagði í viðtali fyrr í vikunni að hann ætlaði sér ekki að „fíflast með eigin trú né annarra né heldur standa í prútti". Hann sagði að umræðan hefði verið tekin í gíslingu öfgamanna. „Öfgamennirnir sem eru beggja vegna borðsins, í Bandaríkjunum og í Múslímaheiminum, nærast hverjir á öðrum. Og að vissu leyti hefur athyglin sem þeim hefur verið veitt í fjölmiðlum verið olía á eldinn."

Hann segir að aðalvandamálið við að færa íslömsku menningarmiðstöðina annað vera það að öfgamenn í múslímaheiminum muni túlka það á þann veg að ráðist væri gegn íslam í Bandaríkjunum. „Þetta mun styrkja stöðu öfgamanna í múslímaheiminum og hjálpa þeim að safna nýliðum." Bæði borgarstjóri New York og Bandaríkjaforseti eru hlynntir byggingu íslömsku miðstöðvarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert