Ísbreiðan horfin fyrir 2030?

Rússneska rannsóknarskipið Akademik Fyodorov siglir um Norðurheimskautið.
Rússneska rannsóknarskipið Akademik Fyodorov siglir um Norðurheimskautið. REUTERS TV

Ís á Norðurheimskautinu þekur nú í þriðja sinn innan við 5 milljón ferkílómetra eftir bráðnun sumarsins. Bandarískir vísindamenn vara við því að í september árið 2030 verði enginn ís lengur á Norður-Íshafinu.

Ísinn á Norðurheimskautinu er nú 4,76 milljónir ferkílómetra samkvæmt mælingum Colorado háskóla í Bandaríkjunum. Síðan byrjað var að fylgjast með ísbreiðunum í gegnum gervihnött hefur það aðeins tvisvar sinnum áður gerst að ísbreiðan minnki svo mikið að hún fari undir 5 milljón ferkílómetra, og gerðist það í fyrsta skipti fyrir fjórum árum síðan.

Mark Serreze prófessor við heimskautastofnun háskólans segir að íshellan á Norðurheimskautinu minnki nú í raun allt árið um kring, því á vorin og sumrin bráðni meira af henni en áður og á veturna bætist minni ís við en áður. „Norðurheimskautið er að hlýna, eins og allir aðrir staðir á jörðu, og það hlýnar hratt og það er byrjað að sjást á ísnum. Þróunin á sér nú stað allt árið og umfang ísbreiðunnar minnkar um 11% eða svo á áratug, sem er mjög ört. Við teljum að ef þú leggur ferð þína á Norðurheimskautið haustið 2030 eða svo, þá munirðu líklega engan ís sjá. Þetta verður bara himinblátt haf," segir Serreze.

Árið 2007 var metár, þá var ísbreiðan minni en nokkurn tíma áður síðan mælingar hófust og þakti aðeins 4,13 milljón ferkílómetra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert