Kína segir friðarverðlaun Lius brjóta gegn gildum Nóbels

Kínversk stjórnvöld sögðu í morgun, að ákvörðun verðlaunanefndar norska stórþingsins að veita „glæpamanninum Liu Xiaobo" friðarverðlaun Nóbels, brjóti í bága við þau gildi, sem Nóbelsverðlaunin byggi á. Segir kínverska utanríkisráðuneytið að verðlaunin muni hafa áhrif á samband Kína og Noregs.

„Liu Xiaobo er glæpamaður sem hefur verið dæmdur af kínverskum dómstóli fyrir að brjóta kínversk lög," segir í tilkynningu kínverska ráðuneytisins. Með því að veita Liu friðarverðlaunin sé verðalaunanefndin að brjóta gegn gildum verðlaunanna og sverta þau. 

Liu Xia, eiginkona Lius, sagðist í morgun vera afar glöð yfir því að maður hennar, sem afplánar nú 11 ára fangelsisvist, hafi fengið verðlaunin. Krafðist hún þess, að maður hennar yrði látinn laus.

„Ég er svo glöð, að ég veit ekki hvað ég á að segja," sagði Liu Xia við AFP fréttastofuna.  „Ég vil þakka öllum, sem studdu Liu Xiaobo. Ég vil þakka Nóbelsverðlaunanefndinni, Vaclav Havel, Dalai Lama og öllum þeim sem hafa stutt Liu. Ég hvet kínversk stjórnvöld til að láta Liu Xiaobo lausan."

Frönsk og þýsk stjórnvöld sendu í dag frá sér yfirlýsingar þar sem Kínverjar eru hvattir til að láta Liu lausan.  Liu var í desember á síðasta ári dæmdur í 11 ára fangelsi fyrir að grafa undan kínverskum stjórnvöldum. 

Kona Lius sagði við AFP, að lögregla hefði sagt sér að hún fengi að fara á morgun til Liaoninghéraðs í norðausturhluta Kína þar sem Liu er í fangelsi svo hún gæti sagt manni sínum frá verðlaununum.   

Liu Xia, eiginkona Liu Xiaobo, með mynd af eiginmanni sínum.
Liu Xia, eiginkona Liu Xiaobo, með mynd af eiginmanni sínum.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert