„Er Butyrka að breytast í heilsuhæli?“

Wikipedia síða um Butyrka
Wikipedia síða um Butyrka Ljósmynd/Wikipedia

„Er Butyrka að breytast í heilsuhæli?“ Þannig spyr rússneska dagblaðið Komsomolskaya Pravda um hið illræmda fangelsi Butyrka eftir að fréttir bárust af því að föngum yrði gert kleift að stunda sólböð í ljósabekkjum. Auk þess fá fangar að notast við Internet-síma og fá betri læknisþjónustu og lyf en áður hefur þekkst.

Fleiri fjölmiðlar gerðu bætta aðstöðu fanganna að umtalsefni nýverið. „Fangar í Butyrka geta nú gortað sig af sólbrúnku sinni yfir Skype,“ segir fréttavef útvarpsstöðvarinnar Business FM, sem sérhæfir sig að vísu í fréttum af viðskiptum.

Endurbæturnar á aðstöðunni í Butyrka koma til vegna dauða lögmannsins Sergei Magnitsky sem lét lífið fyrir ári síðan þar sem hann fékk ekki aðhlynningu í veikindum sínum, en Magnitsky afplánaði í fangelsinu.

Ýmsir hafa bent á að ljósabekkir og Internet-símar séu ekki forgangsmál. Frekar ætti að hleypa heitu vatni á fangelsið og jafnvel fækka í klefum, en um er að ræða klefa með tuttugu föngum. Þá mætti jafnvel fjölga sturtudögum en eins og staðan er núna mega fangar aðeins baða sig einu sinni í viku, á ákveðnum dögum. Séu þeir við réttarhöld þann dag verða þeir að bíða í viku til viðbótar. Þá hafi fangar einnig kvartað undan steikjandi hita á sumrin og nístingskulda yfir vetrartímann. Ekki standi hins vegar til að breyta neinu þar um.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert