Írar stefna á minni banka

Brian Cowen, forsætisráðherra Írlands.
Brian Cowen, forsætisráðherra Írlands. Reuters

Írskar bankar verða í framtíðinni minni en þeir voru í aðdraganda bankahrunsins, að því er Brian Cowen, forsætisráðherra Írlands hefur greint frá. Endurskipulagning bankakerfisins er gerð að kröfu Evrópusambandsins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem standa að björgunarpakka fyrir írska hagkerfið.

Þær aðgerðir sem írska stjórnin hyggst grípa til hljóma kunnuglega en Cowen boðar blandaða leið niðurskurðar og skattahækkana.

„Írskir bankar verða umtalsvert minni en þeir voru í fortíðinni. Annað lykilatriði í samningnum er áætlun um að draga úr fjárlagahallanum. Til einföldunar þurfa stjórnvöld að hækka skatta og draga úr útgjöldum.“

Enn er óljóst hversu mikið fé Írar fá að láni frá ESB, Evrópska seðlabankanum og AGS en fram kemur á vef Irish Times að samningaviðræður geti tekið tvær vikur.

Cowen leggur áherslu á að skattar á fyrirtæki verði ekki hækkaðir - Írar reiða sig mjög á útflutning - en hann boðar að sama skapi að lækkun á tekjuskatti á undanförnum árum verði dregin til baka. Hann hvetur Íra til samstöðu.

„Við skyldum ekki vanmeta umfang efnahagserfiðleikanna. Við verðum að hafa trú á getu okkar sem þjóðar til að rétta skútuna við og auðgast á ný,“ sagði Cowen.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert