Heræfingum ekki beint gegn Kína

Suður-Kóreanskur hermaður vaktar landamærin við Norður-Kóreu.
Suður-Kóreanskur hermaður vaktar landamærin við Norður-Kóreu. AP

Bandarísk stjórnvöld reyndu í dag að sannfæra stjórnvöld í Kína um að fyrirhugaðar heræfingar Bandaríkjamanna og Suður-Kóreumanna á svæðinu um helgina beinist ekki gegn Kínverjum.

Heræfingarnar sem standa eiga yfir í fjóra daga frá sunnudegi koma í kjölfar sprengjuárásar Norður-Kóreumanna á suður-kóreska eyju. Bandarískt flugmóðuskip mun taka þátt í æfingunum til þess að reyna að letja Norður-Kóreumenn til árása.

Talsmaður kínverska utanríkisráðuneytisins lýsti á fimmtudag yfir áhyggjum af heræfingunum og sagði að Kína væri á móti hverjum þeim aðgerðum sem gætu grafið undan friði og stöðugleika á Kóreuskaga.

Norður-Kóreumenn gagnrýndu æfingarnar í morgun og kölluðu þær vopnaskak bandarískra heimsvaldasinna og suður-kóreskra strengjabrúða þeirra.  

Spenna á svæðinu hefur aukist eftir að Norður-Kóreumenn létu sprengjum rigna yfir suður-kóreska eyju á þriðjudag. Þá létu fjórir lífið og 18 særðust og eldur kviknaði í um 20 byggingum. Suður-Kóreumenn svöruðu með skothríð á móti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert