Hjón í ESB mega nú velja hvar þau skilja

Evrópsk hjón geta nú valið í hvaða landi þau skilja.
Evrópsk hjón geta nú valið í hvaða landi þau skilja. Árni Sæberg

Hjón innan Evrópusambandsins geta nú valið í hvaða Evrópulandi þau kjósa að sækja um skilnað, renni hjónasælan sitt skeið á enda. Nýjar reglur um hjónaskilnaði óháð landamærum voru samþykkt í Evrópusambandinu í dag og taka gildi í 14 af ESB-löndunum 27 fyrir mitt ár 2012.

Skilnaðarumsóknin er þó ekki algjörlega valfrjáls, heldur geta hjón af sitt hvoru þjóðerninu og sem búa jafnvel í þriðja landinu valið í hverju af landinu þremur þau skilja. Þannig hafa grískur maður og frönsk kona sem deila heimili í Slóveníu þrjá valmöguleika um hvar skilnaðarferlið fari fram, eftir því hvað hentar þeim best.

Árið 2007 gengu rúmlega milljón hjónaskilnaðir í gegn í ESB og þar af voru um 140.000 hjón, eða 13% þeirra, af sitt hvoru þjóðerninu. "Fjölþjóðleg pör geta rekið sig á ýmis konar handahófskenndar lagahindranir sem geta snúið hjónaskilnaði, sem er erfiður fyrir, upp í fjárhagslegan og tilfinningalegan harmleik," hefur AFP eftir Viviane Reding, dómsmálastjóra ESB. "Ég vil ekki að íbúar ESB þurfi að glíma við flókna alþjóðlega skilnaði á eigin spýtur. Ég vil að þau búi við skýrar reglur."

Sem ákvarða 20 af löndum ESB hvar skilnaður skuli fara fram eftir því hvert þjóðerni fólks er og hvar það hefur búið lengst af. Hin löndin 7 hafa alfarið eigin lög um skilnaði. Löndin 14 sem munu taka upp nýju reglugerðina eru Austurríki, Belgía, Búlgaría, Frakkland, Þýskaland, Ungverjaland, Ítalía, Lettland, Lúxemborg, Malta, Portúgal, Rúmenía, Slóvenía og Spánn.

Geti hjón ekki ákveðið sín á milli hvar þau vilji sækja um skilnað munu dómstólar nota almenn viðmið til að ákveða það fyrir þau.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert