Áformuðu hryðjuverkaárás í Kaupmannahöfn

JP/Politikens Hus við Ráðhústorgið þar sem ritstjórnarskrifstofur Jyllands-Posten, Politiken og …
JP/Politikens Hus við Ráðhústorgið þar sem ritstjórnarskrifstofur Jyllands-Posten, Politiken og Ekstra Bladet eru. mbl.is/GSH

Lögreglan í Kaupmannahöfn hefur handtekið fjóra menn, grunaða um að hafa skipulagt hryðjuverkaárás á ritstjórnarskrifstofur Jyllands-Posten við Ráðhústorgið í Kaupmannahöfn. Þá var einn maður handtekinn í Stokkhólmi í tengslum við málið.

Danska öryggislögreglan, PET, segir í tilkynningu að mennirnir hafi ætlað, á næstu dögum, að ryðjast inn í bygginguna og drepa eins marga og þeir mögulega gætu. Segir Jakob Scharf, yfirmaður PET, að nokkrir hinna handteknu hafi verið í tengslum við alþjóðleg íslömsk hryðjuverkasamtök. 

Lars Barfoed, dómsmálaráðherra Danmerkur, segir að þetta sé alvarlegasta mál af þessu tagi, sem komið hafi upp í Danmörku.

PET segir að fylgst hafi verið með mönnunum í samvinnu við sænsku öryggislögregluna Säpo. Þrír mannanna búa í Svíþjóð en þeir komu í nótt til Kaupmannahafnar og voru handteknir í íbúðum Herlev og Greve.  Þeir eru 44 ára Túnisbúi, 29 ára sænskur ríkisborgari, en fæddur í Líbanon og 30 ára sænskur ríkisborgari en ekki er vitað um fæðingarland hans.  

Einnig var 26 ára íraskur hælisleitandi handtekinn í Danmörku þar sem hann hefur dvalið. Þá var 37 ára sænskur ríkisborgari, fæddur í Túnis, handtekinn í Stokkhólmi.  

Lögreglan segist hafa gert húsleitir þar sem m.a. var lagt hald á vélbyssu með hljóðdeyfi og skotfæri.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert