Færri látast í umferðarslysum á Spáni

Harmonikkuleikari tekur lagið fyrir ökumenn í Bilbao á Spáni.
Harmonikkuleikari tekur lagið fyrir ökumenn í Bilbao á Spáni. Reuters

Ekki hafa jafn fáir látist í umferðarslysum á Spáni í fimm áratugi, en dánartíðnin hefur nú farið lækkandi sjö ár í röð. Ríkisstjórn Spánar segir að þetta megi rekja til hertrar umferðarlöggjafar.

Alls létust 1.730 í umferðarslysum árið 2010, og er það 9,1% fækkun á milli ára, að sögn Alfredo Perez Rubalcaba, innanríkisráðherra Spánar.

„Það voru færri dauðsföll, færri slys og minna um alvarlega áverka. Út frá sjónarhóli umferðaröryggismála þá var þetta jákvætt ár. Tölurnar eru svipaðar því og var árið 1963 þrátt fyrir að mun fleiri bílar og ökumenn séu á götunum.“

Árið 1963 var um ein milljón ökutækja á spænskum vegum og þá létust 1.785 í umferðarslysum. Nú er 31 milljón ökutækja á götum úti að sögn ráðherrans.

Spænsk stjórnvöld segja að hert umferðarlöggjöf spili þarna stórt hlutverk. Þá sé búið að fjölga eftirlitsstöðum þar sem ökumenn eru látnir blása í áfengismæla auk þess sem hraðamyndavélum hefur verið fjölgað.

Tekið var upp punktakerfi á Spáni vegna umferðarlagabrota í júlí 2006 og í lok árs 2007 voru viðurlög vegna slíkra brota hert til muna, en markmiðið var að draga úr hraðakstri, ölvunarakstri og öðrum umferðarlagabrotum og fækka um leið dauðsföllum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert