Rogoff: Evran líklegust til að falla

Kenneth Rogoff var góður skákmaður á yngri árum. Hann er …
Kenneth Rogoff var góður skákmaður á yngri árum. Hann er annar höfunda bókarinnar This Time Is Different: Eight Centuries of Financial Folly, ásamt Carmen Reinhart.

Sá gjaldmiðill sem er líklegastur til að hrynja á árinu sem nú er að fara í hönd er evran, að mati Kenneths Rogoffs, hagfræðiprófessors við Harvard-háskóla og fyrrverandi aðalhagfræðings Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Rogoff telur viðbúið að svonefnd gjaldeyrisstríð haldi áfram.

Rogoff skrifar á vef Project Syndicate að þjóðríki muni leitast við að sporna gegn því að gjaldmiðlar þeirra styrkist of mikið og að of hátt gengi komi niður á útflutningi.  

„Ríkisstjórnir í Asíu munu líklega smátt og smátt „bíða ósigur“ í baráttu þeirra í þessu stríði á árinu 2011, með því að leyfa gjaldmiðlum þeirra að styrkjast andspænis verðbólguþrýstingi og hótunum um hefndaraðgerðir á viðskiptasviðinu,“ skrifar Rogoff sem víkur einnig að þörfinni fyrir frekari aðhaldsaðgerðir í Evrópu.

Þurfa að lækka launin meira 

„Hvað snertir hrun gjaldmiðla hlýtur líklegasti gjaldmiðillinn að vera evran. Í fyrirmyndarheimi myndu Evrópa takast á við gríðarlega skuldabyrði með endurskipulagningu skulda í Grikklandi, Írlandi og Portúgal, sem og skuldir bæjarstjórna og banka á Spáni. Á sama tíma myndu þessar þjóðir endurheimta samkeppnishæfni sína í útflutningi með stórfelldri launalækkun.“

Í bili virðist hins vegar sem að evrópskir stefnumótendur virðist fremur kjósa að auka enn á brúarlánin til jaðarins [Grikklands og Portúgals] og að þeir vilji ekki viðurkenna að markaðirnir muni að lokum krefjast varanlegri og sjálfbærari lausnar,“ skrifar Rogoff sem á með brúarlánum við lán sem ætlað er að koma skuldsettum ríkjum til bjargar í millibilsástandi, áður en markaðirnir rétta úr kútnum. 

„Enginn áhættuþáttur er hættulegri fyrir gjaldmiðla en þegar stefnumótendur neita að horfast í augu við efnahagslegan veruleika; þangað til evrópskir embættismenn gera það mun evran verða í viðkvæmri stöðu,“ skrifar Rogoff í lauslegri þýðingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert