Lögreglan send út á götur á ný

Mótmælandi ber hermann á öxlunum, en mótmælendur binda vonir við …
Mótmælandi ber hermann á öxlunum, en mótmælendur binda vonir við að herinn styðji málstað þeirra. Reuters

Lögreglumenn eru farnir að sjást á götum borga Egyptalands á ný, en þeir hafa nánast ekkert sést í dag og í gær. Stjórnvöld hafa líka víkkað útgöngubannið sem nú gildir frá kl. 15 á daginn til kl. 8 að morgni.

Ekki er ljóst hvaða stefnubreyting liggur að baki ákvörðun stjórnvalda að senda lögreglumenn út á göturnar á ný. Fréttamaður BBC í Alexandríu segir að mun færra fólk sé nú á götum úti og meiri ró sé að færast yfir borgina.

Ríkissjónvarpið í Egyptalandi sýndi í dag myndir af fundi Hosni Múbarak forseta, Omar Suleiman varaforseta og Ahmed Shafiq forsætisráðherra. Sjónvarpið sagði að á fundinum hefði verið farið yfir forgangsmál nýrrar ríkisstjórnar landsins.

Arabískir fréttamenn sögðu í dag að dómarar hefðu gengið til liðs við mótmælendur. Einn þeirra, Hosam Makawi, hefði sakað lögregluna um spillingu og að eyðileggja sönnunargöng.

Farið er að bera á vöruskorti sumstaðar í Egyptalandi. Útlendingar hafa líka flúið landið. Starfsmenn sendiráða og fjölskyldur þeirra hafa líka verið fluttar heim.

Mótmælendur hafa hunsað útgöngubannið. Einn þeirra benti á að nú vildu stjórnvöld loka fólk inni á heimilum sínum í 17 klukkustundir á sólarhring.

Barack Obama forseti Bandaríkjanna skoraði í kvöld á arabíska þjóðarleiðtoga að ræða stöðuna í Egyptalandi. Talsverð gagnrýni hefur beinst að Bandaríkjastjórn vegna þess hvernig hún hefur brugðist við ástandinu. Bandaríkjamenn hafa studd ríkisstjórn Múbarak fjárhagslega og hernaðarlega.

Talsmaður Obama sagði að forsetinn hefði um helgina rætt við forsætisráðherra Tyrklands, forsætisráðherra Ísraels, konung Saudi-Arabíu og við forsætisráðherra Bretlands um ástandið í Egyptalandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert