Davis í raun útsendari CIA

Raymond Davis í haldi lögreglu í Pakistan.
Raymond Davis í haldi lögreglu í Pakistan. Reuters

Bandarískur maður sem er ákærður í Pakistan fyrir morð á tveimur mönnum í borginni Lahore er útsendari bandarísku leyniþjónustunnar CIA og var að störfum þegar hann skaut mennina tvo. Hefur málið valdið milliríkjadeilu á milli ríkjanna tveggja.

Raymond Davis skaut á tvo menn sem höfðu nálgast bíl hans á rauðu ljósi með hálfsjálfvirkri Glock-skammbyssu þann 25. janúar.

Yfirvöld í Pakistan ákærðu Davis fyrir morð en ríkisstjórn Baracks Obama Bandaríkjaforseta hefur fullyrt að hann sé embættismaður ríkisins hjá ræðismannskrifstofu Bandaríkjanna í Lahore og sem slíkur eigi hann rétt á friðhelgi sem gildir fyrir erlenda erindreka.

Breska blaðið The Guardian greinir frá því á vefsíðu sinni í kvöld að Davis sé í raun útsendari CIA og hefur blaðið það meðal annars eftir pakistönskum leyniþjónustumanni. Davis var áður sérsveitarmaður í bandaríska hernum.

Sú uppljóstrun gæti gert bandarískum stjórnvöldum erfiðara fyrir að frelsa Davis sem segist hafa skotið mennina í sjálfsvörn en þeir voru báðir vopnaðir.

Saksóknarar í Pakistan segja að mennirnir hafi verið smáglæpamenn sem ætluðu að reyna að ræna hann með byssu. Saka þeir Davis um að hafa beitt óhóflegu valdi en hann fór úr bíl sínum til þess að skjóta annan manninn tvisvar í bakið þar sem hann reyndi að hlaupa undan.

Málið hefur vakið mikla hneykslan í Pakistan yfir því að vopnaður Bandaríkjamaður skuli valsa um næststærstu borg landsins og hafa sérfræðingar spáð því að mótmæli í líkingu við þau í Egyptalandi geti brotist út ef Davis verður sleppt. Stjórnvöld eru sögð óttast viðbrögð almennings og hafa lýst því yfir að þau þurfi frest til 14. mars til þess að skera úr um hvort að Davis njóti friðhelgi eður ei.




mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert