Páfinn

Benedikt páfi XVI segir gyðinga ekki eiga sök á dauða Jesú Krists í nýrri bók sinni sem kemur út í þessari viku. Bókin er seinna bindi hans af "Jesú frá Nasaret" en sú fyrri kom út árið 2007 og var gefin út á íslensku fyrir síðustu jól.

Í nýju bókinni segir Benedikt páfi að gyðingar beri ekki ábyrgð á dauða Jesú Krists.

Gyðingasamfélagið hefur hrósað útdráttum, sem birst hafa úr öðru bindi bókarinnar. Þó hefur yfirrabbíni Rómaborgar, Riccardo di Segni sagst efast um hvort að slík yfirlýsing sé nauðsynleg. 

Í viðtali við di Segni sem heyrist í myndbrotinu vitnar hann í meistara Shakespeare og segir málið, „Ys og þys út af engu.“ Páfi sé í raun að endurtaka það sem kom fram í hinni  45 ára gömlu Nostra Aetate yfirlýsingu. 

Benedikt páfi skrifar að þeir sem hafi ásakað Jesú hafi ekki verið „almenningur í Ísrael“ og bendir á að Jesús og lærisveinar hans hafi verið gyðingar.

Fréttaskýrandi hjá Reuters segir páfann í raun eiga við að það hafi verið öldungarnir í musterinu sem vildu losna við Jesú þar sem hann ógnaði þeim.  Hann sé nánast að sýkna gyðinga af dauða Jesú en ásökunin hafi lengi eyðilagt samband gyðinga og kaþólskra og hafi jafnvel verið ein orsök helfararinnar.



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert