Gæti orðið annað Chernobyl

Reykur stígur upp frá Fukushima Daiichi 1 kjarnorkuverinu eftir sprengingu …
Reykur stígur upp frá Fukushima Daiichi 1 kjarnorkuverinu eftir sprengingu í morgun. REUTERS TV

Rýmingarsvæðið umhverfis kjarnorkuverið í Fukushima í Japan hefur verið stækkað og nær nú í 20 km geisla út frá verinu. Mikil sprengin varð í kjarnorkuverinu í morgun og steig hvítur reykur upp frá því í kjölfarið.

Geislunin frá kjarnorkuverinu er nú jafnmikil á hverri klukkustund og leyfileg heildargeislun er á einu ári. Slökkviliðið í Tokyo hefur sent sérstaka „úrvals björgunarsveit“ til kjarnorkuversins.

Hluti byggingarinnar hrundi og hvöttu japönsk stjórnvöld fólk í nágrenninu til að hylja vit sín og halda sig innandyra. Að sögn The Washington Post gæti verið í uppsiglingu alvarlegasta kjarnorkuslysið frá slysinu í Chernobyl. 

Ron Chesser, bandarískur sérfræðingur í geislavörnum, segir að kæla verði kjarnakljúfinn í verinu. Hann var fyrsti bandaríski vísindamaðurinn sem fékk að fara inn fyrir lokunarsvæðið í kringum Chernobyl kjarnorkuverið eftir slysið þar 1992.

„Sú staðreynd að þeir eiga í vanda með að kæla kjarnakljúfana mun valda neyðarástandi,“ sagði Chesser. Hann sagði að þótt tekist hafi að slökkva á kjarnorkuverinu á öruggan hátt verði stöðugt að kæla kjarnakljúfana til að koma í veg fyrir bráðnun kjarnans.

Hann sagði ákveðnar lykilforsendur fyrir því að lýsa yfir neyðarástandi vegna kjarnakljúfa. Ein er ef dregur úr kæligetu og önnur er aukin geislun. Chesser kvaðst hafa skoðað japönsk kjarnorkuver og dáðist að þeim varúðarráðstöfunum sem þar voru gerðar í ljósi jarðskjálftahættu.

Kjarnorkuverið í Fukushima varð illa úti í jarðskjálftanum í gær. Fjórir starfsmenn versins slösuðust er þeir unnu að viðgerðum eftir jarðskjálftann.

Samsett mynd úr myndskeiði sýnir hvernig reykurinn jókst sífellt eftir …
Samsett mynd úr myndskeiði sýnir hvernig reykurinn jókst sífellt eftir sprenginguna. REUTERS TV
Fólk sem þurfti að yfirgefa heimili sín í nágrenni Fukushima …
Fólk sem þurfti að yfirgefa heimili sín í nágrenni Fukushima Daiichi kjarnorkuversins fékk skjól í flóttamannamiðstöð. t Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert