Kan heldur í vonina

Naoto Kan, forsætisráðherra Japans, segist vera sannfærður um að Japanar muni sigrast á þeim gríðarlegu erfiðleikum sem þjóðin standi frammi fyrir.

Ekki er vitað um afdrif 10.000 íbúa og óttast menn að fólkið hafi farist þegar flóðbylgja gekk á land á föstudag í kjölfar jarðskjálfta sem mældist 9 á Richter varð norðaustur af Japan. 

Víða er gríðarlega mikið eyðilegging. Eldar loga og þar sem eitt sinn stóðu bæir standa rústir einar.

Íbúar í tugþúsundatali hafa leitað skjóls í skólum, íþróttaleikvöngum og neyðarskýlum. 

Rafmagnsleysi, eldneytisskortur og tómar hillur í matvöruverslunum er á meðal þess sem íbúarnir standa frammi fyrir að ekki sé talað þá óvissu sem ríki. Óttast er að tala látinna muni hækka mikið á næstu vikum.

Kan sagði í dag að hamfarirnar séu þær verstu sem Japanar hafa þurft að þola í 65 ár, eða frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar.

„Hvað varðar jarðskjálftann og flóðbylgjuna, þá er ég sannfærður um að japanska þjóðin muni standa saman og sigrast á þessum gríðarlegu erfiðleikum,“ sagði forsætisráðherrann.

Vandamálin eru flest stór og hafa yfirvöld áhyggjur af geislavirkni við kjarnorkuver sem skemmdust í náttúruhamförunum. Tæpar tvær milljónir heimila eru án rafmagns.

Segir Kan að stjórnvöld muni skammta rafmagn og hvetur hann landsmenn til að spara það. 

Jarðskjálftinn er sá öflugasti sem hefur orðið í Japan frá því mælingar hófust fyrir rúmri öld. Þá er hann sá fimmti stærsti á heimsvísu sl. 100 ár.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert