Misþyrmdu vini í fimm klukkustundir

Drengirnir þurfa að dúsa í fangelsi um óákveðinn tíma.
Drengirnir þurfa að dúsa í fangelsi um óákveðinn tíma. Reuters

Tveir breskir sautján ára drengir, sem misþyrmdu æskuvini sínum hrottalega, hafa verið dæmdir í fangelsi um óákveðinn tíma.

Ross Lambert og Thomas Robinson eru sagðir hafa þvingað hinn átján ára gamla Karl O'Mara út á engi í október á síðasta ári og gengið í skrokk á honum og hellt sjóðandi heitu vatni yfir líkama hans. Líkamsmeiðingarnar stóðu yfir í fimm klukkustundir en hann var tekinn upp á síma með hjálp þriðja aðila, Gavin Moore.

Drengirnir og fórnarlambið hafa þekkst síðan í grunnskóla en af einhverjum ástæðum féll O'Mara í ónáð hjá hinum seku fyrr á árinu og hófu þeir að senda honum hótunarbréf á samskiptasíðunni Facebook. Umrætt kvöld stóð O'Mara í þeirri meiningu að þremenningarnir hefðu leyst úr ágreiningsmálum sínum og féllst á að koma heim til Robinson. 

Þeir hafi farið með hann út á engi þar sem ofbeldisverkin hófust. Á myndbandsupptökunni, sem sýnd var fyrir rétti í Liverpool, má sjá O'Mara biðja um miskunn. Robinson heyrist segja fórnarlambinu að árásin hefði verið skipulögð með tveggja mánaða fyrirvara og skipar af því loknu O'Mara að segja niðrandi hluti um sjálfan sig og þungaða móður hans áður en Lambert gefur honum þungt högg. O'Mara var síðan skilinn einn eftir barsmíðarnar og sendi hann móður sinni smáskilaboð og bað um hjálp.

Þegar O'Mara var beðinn um að lýsa verkjum sínum sagði hann þá vera 10 á skalanum 1 til10 en sjóðandi vatnið fór yfir handleggi hans og niður eftir baki. Augntóft brotnaði sem og nef hans og kjálki.

David Aubrey dómari sagði drengina hafa nánast gengið að vini sínum dauðum. Hann dæmdi Lambert, sem hann kallaði „mjög hættulegan ungan mann“ í a.m.k. fjögurra ára fangelsi. Þá hlaut Robinson a.m.k. þriggja ára og átta mánaða fangelsisdóm. Moore, drengurinn sem hjálpaði til við að mynda verknaðinn, var dæmdur til vistunar í eitt ár á stofnun fyrir unga glæpamenn, þar sem hann játaði að hafa veitt O'Mara áverka.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert