Varpa sprengjum á borg Gaddafis

Ein af herþotum bandamanna.
Ein af herþotum bandamanna. Reuters

Bandamenn vörpuðu níu sprengjum á borgina Sirte í Líbíu, fæðingarstað Gaddafis forseta landsins, í morgun.

Í borginni er eitt af höfuðvígum stuðningsmanna Gaddafis, en hún er 360 kílómetra austur af höfuðborginni Trípóli.

Bandamenn vörpuðu  einnig tveimur sprengjum á borgina í gærkvöldi. Ekki liggur fyrir hvort sprengjurnar hafi valdið einhverju tjóni, en íbúar borgarinnar höfðu flestir flúið heimili sín.

Uppreisnarmenn hafa náð olíuborginni Ras Lanuf aftur á sitt vald og sækja nú í átt að höfuðborginni Trípólí. Þeir segja að olíuvinnsla og -útflutningur á þeim svæðum sem eru undir þeirra stjórn, muni komast í fyrra horf innan tíðar.

Þeir hafa ennfremur náð borgunum  Ajdabiya og Brega, sem eru í norðvesturhluta landsins.

Uppreisnarmenn fögnuðu og skutu með rifflum á veggspjöld með mynd Gaddafis. „Hermenn Gaddafis eru hræddar rottur,“ sagði einn uppreisnarmanna, Mohammed Ali el-Atwish.

Utanríkisráðherrar yfir 35 landa hafa nú staðfest komu sína á ráðstefnu í London, sem haldin verður á fimmtudaginn, þar sem ræða á hernaðaraðgerðir bandamanna í Líbíu.

Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir að fjöldi háttsettra manna í ríkisstjórn og her Líbíu séu að hverfa frá stuðningi við Gaddafi.

Talsmaður líbísku ríkisstjórnarinnar, Mussa Ibrahim, segir að óbreyttir borgarar hafi látið lífið í árásum bandamanna. Hann hvatti til vopnahlés og að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna myndi koma saman vegna ástandsins í landinu.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert