Gáfu barninu aðeins móðurmjólk

Frönsk hjón koma í dag fyrir rétt, ákærð fyrir glæpsamlega vanrækslu sem leiddi til dauða tæplega ársgamallar dóttur þeirra. Barnið fékk aðeins móðurmjólk og lést úr vítamínskorti.

Hjónin, sem heita Sergine og Joel Le Moaligou, eru grænmetisætur og neyta einskis úr dýraríkinu, svo sem eggja eða kúamjólkur. Þau hringdu í lækni í mars 2008 vegna þess að þeim fannst Louise, 11 mánaða gömul dóttir þeirra, veikluleg.

Þegar sjúkrabíll kom að heimili hjónanna í Saint-Maulvis, norður af París, var litla stúlkan látin. Bráðaliðarnir kölluðu lögreglu til vegna þess að barnið var afar magurt og vó aðeins 5,7 kíló. Meðalþyngd 11 mánaða barna er um 8 kíló.

Í ljós kom að barnið hafði aðeins fengið brjóstamjólk alla sína ævi. Krufning leiddi í ljós skort á A og B12 vítamínum en það dregur úr mótstöðu gegn sýkingu og getur stafað af einhæfu mataræði.  

Hjónin eiga yfir höfði sér allt að 30 ára fangelsi, verði þau sakfelld.   

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert