38 spennuþrungnar mínútur

Fylgst með aðgerðum úr Hvíta húsinu. Joe Biden, varaforseti Bandaríkjanna, …
Fylgst með aðgerðum úr Hvíta húsinu. Joe Biden, varaforseti Bandaríkjanna, situr lengst til vinstri með Barack Obama sér á vinstri hönd. Hillary Clinton fylgist spennt með. Reuters

Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir það hafa verið mjög áhrifamikla upplifun að fylgjast með aðgerðunum sem leiddu til þess að Osama bin Laden var drepinn á dögunum.

„Þetta voru 38 mjög spennuþrungnar mínútur,“ sagði Clinton á blaðamannafundi í Róm í dag, þegar hún var spurð út í fræga fréttaljósmynd af æðstu ráðamönnum Bandaríkjanna þar sem þeir fylgdust með því sem fram fór í beinni útsendingu. Clinton sést þar halda fyrir munninn og er geðshræringin nánast áþreifanleg.

„Ég hef ekki hugmynd um hvað við vorum að horfa á,“ sagði hún um augnablikið sem myndin var tekin á. Á myndinni má einnig sjá Barack Obama, Bandaríkjaforseta, halla sér fram og fylgjast með af athygli.

Clinton varði aðgerðina og sagði að hún hefði verið gerið eins fagmannlega og unnt hefði verið. Hún bætti því við að bin Laden hefði verið skilgreint „skotmark“ Bandaríkjanna allar götur frá hryðjuverkaárásunum þann 11. september 2001.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert