Varaði við innræktun á meðal múslima

Reuters

Breski prófessorinn Steve Jones, einn fremsti sérfræðingur Bretlands í genarannsóknum, hefur varað við því að innræktun á meðal breskra múslima sé nú orðið það mikil að hún stefni heilsu afkomendum þeirra í hættu. Breska dagblaðið Sunday Telegraph greinir frá þessu í dag.

Þetta kom fram í ræðu sem Jones flutti í University College of London. Benti hann á að það væri algengt í hinum íslamska heimi að karlmenn gengu að eiga frænkur sínar, til að mynda bróðurdætur.

Vísaði Jones í genetískar rannsóknir máli sínu til stuðnings. Til að mynda væri óvenjuhátt hlutfall barna kvenna af pakistönskum uppruna sem létust á fyrsta aldursári sínu. Sagði hann ástæðu til þess að hafa sérstakar áhyggjur af stöðu mála í borginni Bradford en fram kemur í fréttinni að rannsóknir hafi sýnt fram á að 70% íslamskra hjónavígsla í borginni væru á milli skyldmenna og að helmingur slíkra hjónavígsla væri á milli systkinabarna.

Jones benti á að innræktun hefði verið vel þekkt áður fyrr, meðal annars á milli konungsætta í Evrópu, og haft í för með sér ýmis heilsufarsleg vandamál. Til að mynda væri mikill innri skyldleiki til staðar í núverandi konungsfjölskyldu Bretlands vegna innræktun fyrri tíma. Slíkt þekktist enn í dag og væri alls ekki bundið við múslima.

Búist er við að ummæli Jones muni kalla á hörð viðbrögð og er rifjað upp í fréttinni að kallað hafi verið eftir því að þáverandi umhverfisráðherra í ríkisstjórn Verkamannaflokksins, Phil Woolas, segði af sér embætti árið 2008 í kjölfar hliðstæðra ummæla.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert