Kólígerlar finnast ekki á baunaspírum

Bóndabærinn, þar sem talið var að upptök sýkingarinnar væru.
Bóndabærinn, þar sem talið var að upptök sýkingarinnar væru. Reuters

Engir kólígerlar fundust við fyrstu rannsóknir á sýnum, sem tekin voru úr baunaspírum frá bóndabæ í norðurhluta Þýskalands. Talið var í gær, að rekja mætti banvæna kólígerlasýkingu til baunaspíra frá bænum.

Alls liggja fyrir niðurstöður úr rannsóknum á 23 af 40 sýnum, sem tekin voru úr baunaspírum, ræktuðum á bóndabæ í Neðra Saxlandi.  Landbúnaðarráðuneyti fylkisins segir, að rannsóknum sé haldið áfram og að ekki sé búist við endanlegum niðurstöðum strax.

Öll baunaspíraframleiðsla var stöðvuð á bænum í gær eftir að líkur þótti benda til um að baunaspírurnar væru  orsök matareitrunarinnar. Gert Lindermann, landbúnaðar- og neytendamálaráðherra Neðra-Saxlands, tilkynnti í gærkvöldi að tengsl hefðu fundist milli bóndabæjarins og sýkinganna en mörg veitingahús þar sem gestir hafa veikst notuðu baunaspírur frá þessum sama búgarði.

Klaus Verbeck, sem rekur baunaspíraræktina á bænum í Bienenbüttel, suður af Hamborg, sagði við blaðið Neue Osnabrücker Zeitung, að hann noti ekki áburð til að rækta baunaspírurnar og því skilji hann ekki hvernig þær hafi getað mengast af kólígerlum. 

Alls hefur 21 látið lífið í Þýskalandi og 1 í Svíþjóð af völdum kólígerlasýkingarinnar. Þá hafa 2153 veikst í Þýskalandi, þar af 627 sem hafa þróað alvarlegt sjúkdómseinkenni sem getur valdið nýrnabilun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert