„Hann skaut og skaut“

Elise, 15 ára gömul stúlka, faldi sig undir steini á Utøya meðan byssumaðurinn stóð uppi á steininum og skaut á ungmenni. Hún sá marga félaga sína myrta, að sögn fréttavefjar Verdens Gang.

Hún hringdi í foreldra sína og hvíslaði í símann meðan maðurinn skaut. Þau reyndu að róa hana. Elise sagðist hafa verið í fötum í sterkum litum og farið úr þeim til að dyljast betur. 

Skotárásin byrjaði eftir að ungafólkið á æskulýðsmóti Verkamannaflokksins hafði setið fund þar sem sagt var frá sprengingunni í Osló. Fyrir utan stóð maður í lögreglubúningi. Hann sagðist vera með mikilvægar upplýsingar og bað fólk að koma til sín. Elise sá marga myrta því maðurinn skaut þau sem nálguðust hann.

Hún sagði að dvölin þar sem hún faldi sig undir steininum hafi virst vera margra klukkustunda löng. 

Maðurinn skaut fyrst á þau sem voru í landi. Sum þjöppuðu sér saman og þá skaut hann hópinn. „Svo skaut hann á alla sem lagst höfðu til sunds,“ sagði Elise. „Hann skaut og skaut.“

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert