Telur málamiðlun mögulega

Jay Carney, talsmaður Hvíta hússins, ræddi um skuldaþakið á blaðamannafundi …
Jay Carney, talsmaður Hvíta hússins, ræddi um skuldaþakið á blaðamannafundi í dag. Reuters

Málamiðlun til að ná samkomulagi um hækkun skuldaþaks ríkissjóðs Bandaríkjanna er bæði „nauðsynlegt og mögulegt“ að mati Jay Carney, talsmanns Hvíta hússins. Tíminn sem gefst til aðgerða styttist óðum.

„Við teljum að það sé hægt að finna málamiðlun,“ sagði Carney. Öldungadeildin, sem lýtur stjórn demókrata, og fulltrúadeildin, sem er undir stjórn repúblikana, hafa tekist á um tvær áætlanir í ríkisfjármálunum.  

Báðar tengja niðurskurð útgjalda við hækkun skuldaþaksins sem er 14,3 billjónir (e. trillion) dollara.  Fylkingarnar hafa til þessa ekki getað jafnað ágreining um leiðir að markinu. Frestur til þess rennur út 2. ágúst næstkomandi.

Carney sagði að náist ekki samkomulag fyrir tilsettan tíma þá falli í fyrsta skipti blettur á lánstraust Bandaríkjanna og það verði mjög slæmt ef svo fer. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert