Minnast Varsjáruppreisnarinnar

Leikarar setja á svið uppreisnina í Varsjá.
Leikarar setja á svið uppreisnina í Varsjá. AGENCJA GAZETA

Athöfn fór fram í Varsjá í Póllandi í dag til að minnast uppreisnar borgarbúa gegn innrásarher nasista þann 1. ágúst árið 1944. Um 180 þúsund borgarbúar létust þegar nasistar létu til skarar skríða gegn uppreisnarmönnum.

Klukkan fimm að staðartíma, á nákvæmlega sama tíma og uppreisnarmenn hófu aðgerðir sínar árið 1944, voru sírenur látnar væla í Varsjá í dag. Umferð stöðvaðist og vegfarendur stóðu hljóðir til að votta hinum látnu virðingu sína. Við opinbera athöfn heiðraði Bronislaw Komorowski forseti eftirlifandi uppreisnarmenn sem nú eru aðeins um þrjú þúsund eftir.

Uppreisnin stóð yfir í 63 daga og auk hins mikla fjölda óbreyttra borgara sem nasistar drápu, féllu um 18 þúsund uppreisnarmenn og 17 þúsund þýskir hermenn.

Það var heimavarnarlið, sem stjórnað var frá pólsku ríkisstjórninni sem hafði aðsetur í Lundúnum eftir innrás nasista árið 1939, sem hóf uppreisnina en það hafði á um 50 þúsund manns að skipa í Varsjá.

Sovétmenn höfðu hvatt borgarbúa til þess að rísa upp gegn nasistum en þegar til kastanna kom aðhöfðust herir þeirra ekkert fyrr en í september þegar pólskar herdeildir voru sendar inn í borgina. Um tvö þúsund manns úr þeim sveitum létust.

Bretar og Bandaríkjamenn reyndu að liðsinna uppreisnarmönnum en Jósef Stalín kom í veg fyrir að þeir gætu flutt birgðir yfir landsvæði sitt. Neyddust þeir því til að fara hættulegri leiðir yfir hernumin lönd Evrópu.

Heimavarnarliðið gafst upp þann 2. október. Í kjölfarið hröktu nasistar þá hálfu milljón íbúa sem eftir voru í borginni og jöfnuðu hana við jörðu áður en þeir hörfuðu þaðan.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka