Græn orka í sókn í Þýskalandi

Vindorkan er á uppleið í Þýskalandi, stærsta hagkerfi Evrópu.
Vindorkan er á uppleið í Þýskalandi, stærsta hagkerfi Evrópu.

Hlutur endurnýjanlegrar orku eykst stöðugt í Þýskalandi og er nú svo komið að 20% frumorkuframleiðslunnar koma frá endurnýjanlegum orkugjöfum. Markinu var náð á fyrri helmingi ársins og hefur hlutfallið aldrei verið jafn hátt í iðnsögu Þýskalands.

Fjallað er um málið í þýska tímaritinu Der Spiegel.

Kjarnorkan á útleið

Fyrr á árinu tilkynnti Angela Merkel, kanslari Þýskalands, að Þjóðverjar myndu hverfa frá notkun kjarnorku. Var tilefnið kjarnorkuslysið í Fukushima í Japan í kjölfar jarðskjálftans og flóðbylgjunnar sem honum fylgdi 11. mars sl.

Tölurnar um hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa eru fengnar frá samtökum fyrirtækja (BDEW) sem sækja orku í vind og vatnsföll.

Túlkar tímaritið tölurnar svo að þær séu sigur fyrir það langtímamarkmið stjórnar Merkel að kjarnorkan muni renna sitt skeið á enda í þýskri orkusögu árið 2022. Markmið stjórnarinnar sé að 35% frumorkunnar komi þá frá endurnýjanlegum orkugjöfum. 

Er hlutur vindorku í Þýskalandi nú orðinn um 7,5% og jafngildir það því að sá orkukostur anni eftirspurn um 6,15 milljóna Þjóðverja eftir orku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert