Byssumaður skýtur á bifreiðar

Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Myndin tengist fréttinni ekki beint. Reuter

Enn hefur lögreglu í Hollandi ekki tekist að hafa hendur í hári byssumanns sem hefur skotið afturrúður úr 37 bifreiðum á hraðbrautum suðvestur af Rotterdam í þessum mánuði. Hefur hún heitið 10 þúsund evrum, eða um 1,6 milljón íslenskra króna, þeim sem veitt getur upplýsingar sem leiða til handtöku sökudólgsins.

Fyrsta atvikið átti sér stað 7. ágúst síðastliðinn en enn sem komið er hefur enginn slasast eða látið lífið. Þar sem engar byssukúluleifar hafa fundist í bílunum er talið að sökudólgurinn, eða sökudólgarnir, noti loftbyssu við þennan hættulega leik sinn.

„Sem betur fer hafa engin alvarleg slys orðið hingað til, en að skjóta að bílum, jafnvel með loftbyssu, getur skapað afar hættulegar aðstæður,“ sagði í fréttatilkynningu frá lögreglu.

Lögreglunni hafa borist yfir 300 ábendingar en engar þeirra hafa borið ávöxt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert