Fjölmenn mótmæli í Jemen

Tawakkul Karman
Tawakkul Karman Reuters

Tugir þúsunda íbúa höfuðborgar Jemen tóku þátt í mótmælum í dag þar sem Sameinuðu þjóðirnar eru hvattar til þess að grípa til aðgerða í landinu og koma Ali Abdullah Saleh forseta frá völdum. Mótmælin í Jemen hófust í lok janúar í kjölfarið á uppreisnunum í Túnis og Egyptalandi.

Stjórnarandstæðingar á þingi lýstu því yfir í gær að þeir myndu styðja inngrip Sameinuðu þjóðanna í stjórnmál landsins svo hægt yrði að binda enda á óeirðirnar sem ríkt hafa í landinu mánuðum saman.

„Ó heimur, hvers vegna þegir þú þegar íbúar Jemen eru myrtir?" kallaði einn mótmælanda er hópurinn gekk frá Change-torgi í miðborg Sanaa, þar sem mótmælendur hafa dvalið svo mánuðum skiptir.

Á sama tíma tóku tugir blaðamanna í Sanaa þátt í setuverkfalli. Þeir krefjast þess að starfsbróðir þeirra Mohammed Sudam verði látinn laus en hann var handtekinn á föstudagskvöldið.

Á föstudag hlaut blaðakonan Tawakkul Karman friðarverðlaun Nóbels  fyrir forystu sína í baráttu fyrir réttindum kvenna, lýðræði og friði í Jemen.

Saleh sagði á laugardag að hann væri reiðubúinn til að segja af sér en hann myndi ekki láta völdin í hendur fjandmanna sinna. Forsetinn hefur verið við völd í 33 og hefur hingað til neitað að fara frá völdum nema að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Karman segir að ekki sé hægt að taka mark á þessum orðum forsetans og að mótmælin myndu halda áfram. „Við trúum ekki þessum manni og ef hann vill fara frá völdum þá má hann það," sagði Karman í viðtali við  Al-Jazeera sjónvarpsstöðina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert