Mátti ekki taka myndir af dóttur sinni

Breskir lögreglumenn. Úr myndasafni.
Breskir lögreglumenn. Úr myndasafni. Reuters

Öryggisverðir í Braehead-verslanamiðstöðinni í Glasgow í Skotlandi sáu ástæðu til þess að hafa afskipti af karlmanni síðastliðinn föstudag þegar þeir sáu hann taka myndir af dóttur sinni borða ís. Breska dagblaðið Daily Telegraph segir frá þessu í dag.

Maðurinn, Chris White, hafði tekið myndirnar á símann sinn en öryggisverðirnir tilkynntu honum að bannað væri að taka myndir í verslanamiðstöðinni. White sagði þeim þá að hann hefði þegar sent myndina og aðra til, af dóttur hans á leikfangamótorhjóli, á Facebook-síðuna sína.

Öryggisverðirnir kölluðu þá lögreglu til sem tilkynnti White að hægt væri að gera símann hans upptækan með vísan í hryðjuverkalög. Honum var einnig bent á að skilti væru um allt í verslanamiðstöðinni sem bönnuðu myndatökur.

Haft er eftir talsmanni Braehead-verslanamiðstöðvarinnar í fréttinni að ekki sé ætlunin að koma í veg fyrir að fjölskyldufólk taki myndir af börnunum sínum með þessari reglu heldur sé hugsunin aðeins að tryggja öryggi viðskiptavina.

Ekki kemur fram í fréttinni hver niðurstaða málsins hafi orðið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert