Mótmælin breiðast út

Hernemum Wall Street
Hernemum Wall Street Reuters

Mótmæli gegn gróða stórfyrirtækja og völdum þeirra sem hafa staðið yfir í Bandaríkjunum í nokkrar vikur færast sífellt í aukana og nú er svo komið að boðað hefur verið til sambærilegra mótmæla í höfuðborg Bretlands, Lundúnum, á laugardag.

Hreyfingin Occupy London Stock Exchange (OccupyLSX) ætlar að koma saman í nágrenni fjármálahverfis borgarinnar og samkvæmt Facebook síðu hreyfingarinnar hafa um 3.500 manns boðað þátttöku.

Þúsundir hafa mótmælt í fjármálahverfi New York borgar undanfarnar vikur og hafa mótmælin breiðst víða út um Bandaríkin, meðal annars til Washington, höfuðborgar landsins.

Fjölmargir hafast við í tjöldum og kemur fólkið víða að enda virðist almenningur í Bandaríkjunum vera búinn að fá nóg af völdum fjármálafyrirtækja á kostnað almennings. Krafan um lýðræði í raun er hávær en mótmælendur telja að stjórnmálamenn landsins séu undir hælnum á milljarðamæringum. 

Í Boston greip óeirðalögregla til aðgerða gegn mótmælendum aðfararnótt þriðjudags og handtók á annað hundruð mótmælendur.

Í gærkvöldi fóru nokkur hundruð mótmælendur að heimilum milljarðamæringa í New York. Meðal annars að heimili Ruperts Murdochs, eiganda fjölmiðlaveldisins News Corp. og milljarðamæringsins og fjárfestisins David Koch, sem meðal annars leggur Teboðshreyfingunni til töluvert fjármagn.

Fyrir utan heimili forstjóra JP Morgan Chase, Jamie Dimon kallaði hópurinn „JPMorgan þú ert einskins nýtur! Fólk þar fá Hróa hetti að halda".

Eins var komið saman fyrir utan heimili sjóðsstjóra vogunarsjóða og fasteignafélaga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert