11 ára þvinguð í hjónaband

Rómafólk. Mynd úr myndasafni.
Rómafólk. Mynd úr myndasafni. Reuters

Miklar umræður hafa verið í Noregi að undanförnu  um stöðu Rómafólks, eða sígauna þar í landi eftir að sjö þeirra voru ákærðir fyrir grófa misnotkun á sex ungum stúlkum.  Fólkið er að auki sakað um að hafa neytt 11 ára gamla stúlku til að giftast fullorðnum manni, en samkvæmt norskum lögum er það barnaníð.

Norska lögreglan bendir á að barnaverndarlög þar í landi nái yfir öll börn sem búi í landinu, líka þau sem ekki séu með norskan ríkisborgararétt.

Rudolf Christoffersen, lögreglumaður sem hefur sérhæft sig í málum sem tengjast mansali, segir í samtali við norska blaðið Aftenposten í dag að ungmenni og börn séu gerð út af fullorðnum til að betla, stela og selja falsaðan varning. „Árin 2008 og 2009 var 13 ára gamalt barn tekið af lögreglunni 28 sinnum víðs vegar um Noreg fyrir þjófnað og ýmis afbrot. Það eina sem gerðist var að barnið var sent aftur til þeirra sem sögðust vera foreldrar þess, en síðar kom í ljós að þeir áttu ekki barnið,“ segir Christoffersen.

Hann segir að barnaverndarnefndir skoði sjaldan mál af þessu tagi. „Það er hræðilegt hversu lítið lögregla og barnavernd gerir til að vernda þessi börn gegn fólki sem misnotar þau.“

Talið er að fjöldi sígaunabarna og -ungmenna hafist við á götum Óslóar og hefur lögregla haft afskipti af þriggja og fjögurra ára gömlum börnum sem eiga hvergi heima. Nýlega fannst 15 ára gömul Rómastúlka á almenningssalerni skammt frá Bergen. Með henni var sjö mánaða gamalt barn hennar.

Talsmaður barna- og fjölskyldumálaráðuneytis Noregs sagðist lítið geta tjáð sig um málið við fjölmiðla, en staðfesti að norsk barnalög giltu fyrir öll börn í Noregi, burtséð frá ríkisborgararétti eða uppruna.

Frétt Aftenposten

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert