Lifði 66 stundir í rústunum

27 ára gamalli konu var bjargað úr húsarústum í austurhluta Tyrklands í nótt, 66 klukkustundum eftir að öflugur jarðskjálfti reið yfir með þeim afleiðingum að að minnsta kosti 459 manns létu lífið. Konan fannst í rústum heimilis síns í í bænum Ercos í Van héraði, sem varð einna verst úti í skjálftanum.

Margar þjóðir hafa boðið Tyrkjum fjárhagsaðstoð í kjölfar hamfaranna. Fyrstu viðbrögð þarlendra stjórnvalda voru að hafna allri aðstoð, en nú mun þeim hafa snúist hugur og hafa ákveðið að þiggja aðstoðina, þar á meðal frá Ísrael.

Þetta staðfesti talsmaður ísraelska utanríkisráðuneytisins við AFP-fréttastofuna í morgun og sagði að þrátt fyrir stirð samskipti á milli landanna tveggja hefðu Tyrkir leitað til Ísraela og beðið þá um að útvega hjólhýsi fyrir þá sem misstu heimili sín.

Varnarmálaráðuneyti Ísraels segir að Boeing 747 þota muni halda af stað til Tyrklands á morgun með farm hjólhýsa og að fleiri flugvéla sé að vænta á næstu dögum með ýmis hjálpargögn.

Mikil neyð ríkir nú á meðal þeirra sem misstu heimili sín í jarðskjálftanum. Sumir halda til í tjöldum, en aðrir hafast við utandyra í nístandi frosti. Tyrknesk stjórnvöld hafa verið gagnrýnd fyrir að hafa brugðist seint og illa við neyð fólksins, en aðstoð þykir af skornum skammti og illa skipulögð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert