Fíll treður veiðivörð undir

Maðurinn varð undir fíl þegar hann var að taka myndir.
Maðurinn varð undir fíl þegar hann var að taka myndir.

Suðurafrískur veiðivörður beið bana um helgina þegar hann varð undir fíl nærri lúxusveiðiskála. Var hann að taka myndir úti í runnum þegar fíllinn tróð hann undir. Fannst lík hins 29 ára gamla Tavus Momberg aðeins 200 metra frá Makweti Safari-skálanum á verndarlandi í einkaeigu í Waterberg-fjöllum í norðurhluta Suður-Afríku.

Momberg hafði verið að taka myndir með samstarfsmanni sínu en hélt förinni einn áfram þegar félagi hans sneri við. Ekki er vitað hvort hann hafi verið að taka myndir af fílnum þegar hann varð undir honum.

Mikill árangur hefur náðst með verndun fíla í Suður-Afríku og hefur þeim fjölgað nærri tvöfalt frá árinu 1995 og eru þeir nú um 18 þúsund í landinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert