Engar breytingar á hlutverki Evrópska seðlabankans

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands og Mario …
Angela Merkel, kanslari Þýskalands, Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands og Mario Monti, forsætisráðherra Ítalíu á blaðamannafundinum í dag. Reuters

Áætlanir Þýskalands og Frakklands um breytingar á stofnsáttmálum ESB munu ekki hafa áhrif á sjálfstæði Evrópska seðlabankans, segir Angela Merkel, kanslari Þýskalands.

Þrýst hefur verið á Merkel um að leyfa Evrópska seðlabankanum að gerast þrautalánveitandi fyrir aðildarríki ESB. Eftir viðræður við Nicolas Sarkozy, forseta Frakklands, sagði Merkel hins vegar að hlutverk Evrópska seðlabankans myndi haldast óbreytt, þ.e að meginmarkmið bankans yrði áfram það að halda niðri verðbólgu sama hvað það kostaði.

„Frakklandsforseti hefur undirstrikað sjálfstæði Evrópska seðlabankans,“ sagði Merkel við blaðamenn á sameiginlegum blaðamannafundi með Sarkozy og Mario Monti, forsætisráðherra Ítalíu, í Strassborg í Frakklandi í dag. „Svo hinar endanlegu breytingar á sáttmálunum munu ekki varða skyldur Evrópska seðlabankans, sem tengjast peningamálastefnu og fjármálastöðugleika,“ bætti Merkel við.

Að sögn Sarkozys ættu aðildarríki ESB að bera virðingu fyrir sjálfstæði Evrópska seðlabankans og gera því hvorki „jákvæðar né neikvæðar kröfur“ til hans.

„Við erum öll þrjú sammála um það að með virðingu fyrir sjálfstæði þessarar stofnunar ætti fólk að halda sig frá því að gera jákvæðar eða neikvæðar kröfur til hennar,“ sagði Sarkozy á blaðamannafundinum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert