Kínverjar eins og nýlenduherrar

Vaxandi kjötneysla Kínverja eykur enn á þörfina fyrir innfluttar landbúnaðarvörur.
Vaxandi kjötneysla Kínverja eykur enn á þörfina fyrir innfluttar landbúnaðarvörur. Reuters

Kínverjar hafa gengið fram eins ný-nýlenduherrar í Brasilíu og fyrst og fremst hugsað um að tryggja sér hrávörur sem eru síðan nýttar til virðisaukandi framleiðslu heimafyrir. Þetta segir Rubens Ricupero, hagfræðingur og fyrrverandi stjórnarerindreki fyrir Brasilíu, í samtali við New York Times.

Eins og rakið var á fréttavef Morgunblaðsins í dag er nú um það deilt í brasilískum stjórnmálum hversu langt eigi að ganga í að greiða fyrir fjárfestingu Kínverja í þessu valdamesta landi Rómönsku-Ameríku.

Það bregður birtu á baksvið þeirra deilna að rifja upp umfjöllun New York Times frá því í sumar um ásælni Kínverja í ræktarland í Brasilíu.

Kom þar fram að nærri 84% af innflutningi Kína frá Brasilíu í fyrra voru hrávörur borið saman við 68% árið 2000. Þýðir það að Brasilíumenn flytja hlutfallslega mjög lítið inn af unnum vörum frá Suður-Ameríkuríkinu.

Vitnað er til rannsóknar Alþjóðabankans í fyrra og þeirrar niðurstöðu að vegna hækkandi matvælaverðs hafi það færst í aukana að erlend ríki kaupi ræktarland í þróunarlöndum.

Áætlað sé að innflutningur Kínverja á sojabaunum muni aukast um 50% fram til ársins 2020 og skýrist það meðal annars af því að kjötneysla eykst stöðugt í þessu fjölmennasta ríki heims.

En baunirnar eru meðal annars nýttar í dýrafóður.

Að lokum er vikið að áhuga Kínverja á að leigja þrjár milljónir ekra á Filippseyjum undir ræktun en það samsvarar tæplega 12.141 ferkílómetra lands. Er það ríflega fjórfalt meira land en Kínverjinn Huang Nubo vildi kaupa á Grímsstöðum á fjöllum. Jafngildir landið á Filippseyjum um 12% af flatarmáli Íslands.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert