Særðist þegar bréfasprengja sprakk

Lögreglumaður fyrir framan skrifstofur Equitalia í Róm í dag.
Lögreglumaður fyrir framan skrifstofur Equitalia í Róm í dag. Reuters

Bréfasprengjan sprakk í dag á skattstofu í Róm, höfuðborg Ítalíu, með þeim afleiðingum að yfirmaður stofunnar særðist.

Fram kemur á vef breska ríkisútvarpsins að Marco Cuccagna, yfirmaður Equitalia, hafi hlotið augn- og handaráverka þegar glerborð brotnaði. Hann hefur gengist undir aðgerð og hefur læknum tekist að fjarlægja glerbrot úr báðum augum Cuccagna. Þeir segja að hann muni halda sjóninni.

Haft er eftir lögreglu að bæklingur hafi fylgt með bréfasprengjunni sem anarkistasamtökin FAI á Ítalíu hafi undirritað.

Samtökin segjast einnig hafa sent bréfasprengju til höfuðstöðva Deutsche Bank í Frankfurt í Þýskalandi sl. miðvikudag. Lögregluyfirvöld náðu að stöðva sendinguna, sem var stíluð á bankastjórann Josef Ackermann.

Í bréfi sem fylgdi með kom fram að FAI hygðist gera þrjár árásir til viðbótar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert